Beint í efni

Ofbeldi með tækjum og netinu

Það er stafrænt ofbeldi þegar ofbeldi er beitt gegnum síma, tölvu eða samfélagsmiðla (eins og Facebook, Twitter, Instagram eða Snapchat). Það getur verið texti eða mynd með skilaboðum, tölvupósti eða gegnum samfélagsmiðil. Það er líka stafrænt ofbeldi ef einhver er að fylgjast með hvað þú gerir í símanum þínum og hvað þú gerir á netinu.

Fólk sem verður fyrir stafrænu ofbeldi upplifir oft ótta, reiði, kvíða, þunglyndi og að vera ekki við stjórn á eigin lífi. Fólki finnst það ekki eiga neitt einkalíf, er líklegt til að einangra sig og upplifir hjálparleysi.

Það getur verið stafrænt ofbeldi ef viðkomandi:

 • Gerir lítið úr þér á sínum samfélagsmiðlum.
 • Merkir þig á móðgandi eða niðurlægjandi myndum.
 • Hótar að tala illa um þig eða bera út sögur á netinu.
 • Stelur eða heimtar að fá lykilorðin þín að tölvupósti, bankareikningi eða samfélagsmiðlum.
 • Stjórnar hver má vera vinur þinn á samfélagsmiðlum og við hverja þú mátt tala við þar.
 • Skráir sig inn á samfélagsmiðla í þínu nafni.
 • Hótar að sýna öðrum nektar- eða kynlífsmyndir af þér.
 • Sendir þér nektarmyndir af sér þótt þú vildir það ekki.
 • Notar einhverja tækni, eins og GPS, til þess að fylgjast með þér.

Það er alltaf betra að segja einhverjum frá hvernig þér líður. Ef þú vilt fá aðstoð getur þú haft samband við Bjarkarhlíð í Reykjavík eða Bjarmahlíð á Akureyri sem sérhæfa sig í stuðningi við fullorðna við hvers konar ofbeldi. Engu máli skiptir hversu langt er síðan ofbeldið átti sér stað. Ef þú sérð óviðeigandi efni á netinu sem varðar börn geturðu tilkynnt það gegnum ábendingarlínu Barnaheilla.

Börn og fullorðnir geta alltaf talað við einhvern hjá 1717 (hjálparsíma Rauða krossins) eða haft samband við 112 gegnum síma eða netspjall.

Úrræði í boði

Skoða fleiri úrræði

  Bjarkarhlíð

  Bjarkarhlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Öll aðstoð er á þínum forsendum.

  Bjarmahlíð á Akureyri

  Bjarmahlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Öll aðstoð er á þínum forsendum.

  Þrjár dökkhærðar stelpur sitja á grasi. Þær snúa baki í myndavélina og spjalla saman.

  Barnaheill

  Barnaheill býður upp á ráðgjöf um allt varðandi börn. Á vefsíðu þeirra er hægt að benda á óviðeigandi hegðun gagnvart börnum á netinu.