Upplýsingar fyrir aðstandendur varðandi fjárhagslegt ofbeldi gegn fötluðu fólki

Fjárhagslegt ofbeldi gegn fötluðu fólki er stórt vandamál sem erfitt er að takast á við en margt er hægt að gera til að hjálpa og koma í veg fyrir það.

Almennar upplýsingar

Hvað er fjárhagslegt ofbeldi?

Fjárhagslegt ofbeldi getur verið alls konar en það tengist alltaf pening.

  • Það getur verið þegar fólk heimtar að einstaklingur eyði pening.
  • Það getur líka verið þegar fólk sannfærir einstaklinginn um að eyða pening.

Hvað er félagasvik?

  • Félagasvik er þegar einhver þykist vera vinur einstaklings til þess að ná pening frá þeim.

Stórt og erfitt vandamál

Fjárhagslegt ofbeldi, og þá sérstaklega félagasvik, á margt sameiginlegt með Ofbeldi í nánum samböndum. Munurinn er að þegar kemur að félagasviki þá er markmiðið alltaf að ná sem mestum pening úr einstaklingi. Þegar peningurinn er búinn þá er vináttan það líka.

Það getur verið mjög erfitt fyrir aðstandendur að taka á félagasvikum. Þó að einstaklingur sé fatlaður þá hefur hann rétt til að gera mistök eins og allir aðrir.

Hægt er samt að reyna að koma í veg fyrir of mikið tjón.

Fólk sem fremur félagasvik er ekki að auglýsa það og segir oft skotmörkum sínum að þau megi ekki segja neinum frá. Það eru samt ummerki sem hægt er að fylgjast með.

Almennar upplýsingar um fjárhagslegt ofbeldi gegn fötluðu fólki

Fræðsla

Það er mjög mikilvægt að allir fái fræðslu um fjármál. Það gleymist stundum þegar kemur að fötluðu fólki.

Fatlað fólk þarf eins og aðrir að vita hvað er eðlilegt í meðhöndlun á fjármunum og þau þurfa að vita hvaða réttindi þau hafa.

Nýr áhrifamikill einstaklingur í lífinu

  • Einstaklingurinn er allt í einu búinn að eignast nýjan vin eða kominn í stóran vinahóp. Mikill tími fer í þessa vináttu og fólkið hefur mikil áhrif á einstaklinginn.
  • Ef einstaklingurinn talar um að nýi vinurinn verður oft reiður eða leiður yfir að eitthvað gerðist ekki. Eins og ef einstaklingurinn átti ekki pening til að fara í bíó eða út að skemmta sér. Það þarf ekki að vera að hann nefni að hann átti að borga fyrir alla.
  • Ef einstaklingurinn sýnir kvíða þegar hann talar um nýju vinina, þá sérstaklega ótta við að missa þá ef hann gerir eitthvað vitlaust, þá getur það verið merki um að eitthvað sé að.

Breytingar á hegðun, útliti og velferð

  • Hegðun, útlit og annað breytist. Það getur verið eðlilegt ef einstaklingurinn breytir um persónuleika eða stíl til þess að passa inn í nýjan vinahóp. Ef breytingin er mikil samt þá getur verið eitthvað að.
  • Merki um þunglyndi. Ef einstaklingur hættir að baða sig, einangrar sig frá öðrum en vininum eða hefur minni stjórn á tilfinningum þá er það skýr merki um að eitthvað sé að sem þarf að skoða.

Heimabankinn lýgur ekki

Ef ógreiddir reikningar byrja að safna upp en reikningurinn er tómur þá er peningurinn augljóslega að fara í eitthvað.

Sérstaklega skal skoða:

  • Ef greiðslur eru til fyrirtækja og samtaka sem passa ekki við almenna notkun einstaklingsins. Þetta á líka við ef háar mánaðarlegar greiðslur eru til góðgerðarmála. Fólk sem hringir og biður um stuðning getur verið mjög ýtið.
  • Ef það eru margar eða háar millifærslur á annað fólk.
  • Ef það eru mánaðarlegir reikningar fyrir þjónustur sem einstaklingurinn hefur ekki. Eins og ef einstaklingurinn er að borga í líkamsrækt sem hann stundar ekki.
  • Ef það eru margir reikningar fyrir eins þjónustur, eins og margir mánaðarlegir símreikningar eða margar greiðslur til streymisveitna.

Hvert get ég leitað?

Hvað þú getur gert fyrir fjölskyldumeðlim sem er að lenda í félagasvikum eða öðru fjárhagslegu ofbeldi fer mjög eftir stöðu þinni í lífi einstaklingsins.

Ef einstaklingurinn er yfir 18 ára þá er hann fullorðinn einstaklingur með rétt til friðhelgi eins og allir aðrir.

Þú getur samt leitað ráða hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna, félagasamtökum og réttindagæslu fatlaðra til að fá upplýsingar og leiðbeiningar.

Það er líka hægt að leita beint til lögreglu eða lögfræðings.

Mikilvægast er að reyna að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.

Ef einstaklingurinn telur að hann geti ekki haft stjórn á þessu í framtíðinni þá er hægt að skipa ráðsmann sem hefur yfirumsjón með eignum og peningum einstaklingsins.

Einstaklingurinn þarf að skilja og vilja hvað það felur í sér að hafa ráðsmann.

AÐ skipa ráðsmann eða taka fjárræði af einstaklingi er alltaf síðasta úrræði.

Manneskja leiðir aðra manneskju í gegnum stóra gátt inn í bjartan himinn.

Félagsþjónusta sveitar­félaga

Félags- og velferðarþjónustur sveitarfélaganna veita fjölbreyttan stuðning við einstaklinga og fjölskyldur þeirra. Þar er hægt að fá stuðning vegna ofbeldis.

Merki fyrir fatlaða á vegg fyrir ofan skábraut.

Réttindagæslu­maður

Réttindagæslumaður hjálpar fötluðu fólki að ná fram rétti sínum.

Lögreglan

Lögreglan hjálpar fólki sem verður fyrir ofbeldi. Ofbeldi í nánum samböndum er litið mjög alvarlegum augum hjá lögreglunni.

Tengd málefni

Ofbeldi gegn fötluðu fólki

Ofbeldi er það þegar einhver gerir eitthvað sem meiðir þig eða lætur þér líða illa. Fatlaðir er líklegra til að verða fyrir ofbeldi en ófatlaðir.

Hendi heldur uppi sparibauk.

Fjárhagslegt ofbeldi

Fjárhagslegt ofbeldi er þegar einhver svíkur af þér peninga, tekur peninga þína af þér eða neitar að láta þig fá peningana þína.

Fjórar manneskjur. Ein er með dökkan húðlit, ein er í hjólastól, ein er kona og ein er með hijab.

Jaðarsettir hópar

Jaðarsetning er það þegar manneskja eða hópur er settur til hliðar og lengra frá því sem aðrir hafa greiðari aðgang að.

Aldraður maður fær aðstoð

Ofbeldi gegn eldra fólki

Ofbeldi er þegar einhver gerir eitthvað sem meiðir eða lætur öðrum einstaklingi líða illa. Eldra fólk er líklegra til að verða fyrir ofbeldi en yngri kynslóðir.