Fíkniefnaneysla
Þrátt fyrir að börn frá alls konar fjölskyldum geti byrjað í fíkniefnaneyslu, er margt sem bendir til þess að börn í alvarlegri fíkniefnaneyslu eigi við einhverskonar andleg eða geðræn vandamál að stríða. Til dæmis börn sem hafa lent í einhverskonar áföllum, upplifað höfnun eða eru með raskanir eða greiningar sem gerir þau útsettari fyrir fíkniefnaneyslu (eins og ADHD, kvíðaraskanir, þunglyndi og einhverfa). Þetta geta verið börn sem lentu í einelti, urðu fyrir einhverskonar ofbeldi, eða bara barn sem er lítið í sér að upplagi og hefur lélegt sjálfstraust og lágt sjálfsmat.
Þegar barn upplifir sig utangarðs, finnst það ekki passa inn í hópinn eða líður illa inni í sér, getur fíkniefnaneysla verið leið þess til að deyfa vanlíðanina, flýja raunveruleikann, vera töff, falla í kramið og vera tekið inn í einhvern vinahóp.
Eftirfarandi geta verið merki um að barnið sé byrjað að nota fíkniefni:
- Árangur eða mæting í skóla versnar, áhugaleysi á skóla.
- Kemst upp á kant við skólayfirvöld eða önnur yfirvöld.
- Smáglæpir, eins og búðarhnupl eða skemmdarverk.
- Missir áhuga á vinum, tómstundum eða öðrum áhugamálum.
- Skyndileg breyting á hegðun og skoðunum.
- Breyting á vinahóp.
- Kæruleysi varðandi útlit eða hreinlæti.
- Breyting á matar- og svefnvenjum.
- Samband við foreldra og fjölskyldu versnar, áhugaleysi á fjölskyldu.
- Fer að fara á bak við foreldra og fjölskyldu, lygar, laumulegt hátterni.
- Viðbrögð við hlutum óeðlilega sterk og tekur afskiptum af sínum málum mjög illa.
Þótt eitthvað af þessum merkjum komi fram þýðir það ekki að barnið sé endilega farið að nota fíkniefni. Þetta geta þó verið merki um að barninu líði ekki nógu vel og eigi við einhver vandamál að stríða. Það setur síðan aftur barnið í hættu á að lenda í fíkniefnaneyslu.