Birtingarmyndir eineltis

Barn sem er lagt í einelti líður illa og finnur til varnarleysis. Algengt er að barnið vill ekki segja frá því sem gerist svo það hljóti ekki verra af. Einelti fer oft fram þar sem enginn sér. Það er mjög áríðandi að við öll þekkjum einkenni eineltis.

Einelti birtist í mörgum myndum, það getur verið:

 • Líkamlegt. Barsmíðar, spörk, hrindingar.
 • Munnlegt. Uppnefni, niðrandi athugasemdir, endurtekin stríðni.
 • Skriflegt. Neikvæð skilaboð á netinu eða síma, krot, bréfasendingar.
 • Óbeint. Baktal, útskúfun, útilokun úr vinahópi.
 • Efnislegt. Hlutum stolið eða þeir skemmdir.
 • Andlegt. Þvingun til að gera eitthvað gegn vilja sínum.

Vísbendingar um einelti

Breytt hegðun og líðan barns geta verið vísbendingar um að það sé lagt í einelti. Upptalningin hér að neðan er ekki tæmandi.

Tilfinningalegar

 • Breytingar á skapi.
 • Endurtekinn grátur og viðkvæmni.
 • Svefntruflanir eða martraðir.
 • Breyttar matarvenjur, lystarleysi eða ofát.
 • Lítið sjálfstraust, hræðsla og kvíði.
 • Depurð, þunglyndiseinkenni eða sjálfsvígshugsanir.

Líkamlegar

 • Líkamlegar kvartanir, til dæmis höfuðverkur eða magaverkur.
 • Kvíðaeinkenni, eins og að naga neglur, stama eða ýmis konar kækir.
 • Skrámur eða marblettir sem barnið getur ekki útskýrt.
 • Rifin föt eða skemmdar eigur.

Félagslegar

 • Barnið virðist einangrað og einmana.
 • Barnið fer ekki í og fær ekki heimsóknir.
 • Barnið vill ekki taka þátt í félagsstarfi og á fáa eða enga vini.

Hegðun

 • Óútskýranleg skapofsaköst eða grátköst.
 • Barnið neitar að segja frá hvað amar að.
 • Árásargirni og erfið hegðun.

Í skóla

 • Barnið hræðist að fara eitt í og úr skóla, biður um fylgd eða fer aðra leið.
 • Barnið leggur fyrr eða seinna af stað í skólann en venjulega.
 • Barnið mætir oft seint eða byrjar að skrópa.
 • Barnið forðast ákveðnar aðstæður í skólanum, til dæmis leikfimi og sund.
 • Barnið hættir að sinna náminu, einkunnir lækka, erfiðleikar með einbeitingu.
 • Barnið einangrar sig frá skólafélögum.
 • Barnið forðast að fara í frímínútur.

Ef grunur er um að einelti eigi sér stað

Ef þú tekur eftir einhverjum af þessum einkennum eða einhverju öðru sem bendir til að barni líði illa, er mikilvægt að kanna málið og láta viðeigandi aðila vita. Það geta verið foreldrar, kennarar, þjálfarar, stjórnendur skóla eða annað starfsfólk skólans. Ef þér finnst þú ekki fá næga aðstoð í skólanum geturðu haft samband við Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum á netfangið fagrad@mms.is. Ef einelti á sér stað innan íþrótta- og æskulýðsstarfs er hægt að leita til Samskiptaráðgjafa. Alvarlegt einelti á að tilkynna til barnaverndar gegnum 112.

Upplifði barnið þitt ofbeldi?

Ráð fyrir foreldra barna sem beita eða verða fyrir ofbeldi

Einelti, forvarnir og samskipti

Vináttuverkefni Barnaheilla

Vinátta er forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti fyrir 0-9 ára börn. Það byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og er í stöðugri þróun. Um er að ræða efni fyrir þrjá aldurshópa barna: börn yngri en þriggja ára í leikskólum og hjá dagforeldrum, börn þriggja til sex ára í leikskólum og börn í 1.- 4. bekk í grunnskólum og frístundarheimilum.

Úrræði

Fagráð eineltismála

Ef þú ert í grunn- eða framhaldsskóla og færð ekki úrlausn á eineltismáli geturðu leitað til fagráðs eineltismála.

Umboðsmaður barna

Umboðsmaður barna er opinber talsmaður barna og vinnur að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna.

Samskiptaráðgjafi

Samskiptaráðgjafi er hér til að hlusta, styðja þig og aðstoða með öll mál sem snerta óeðlileg samskipti eða áreiti við íþróttaiðkun eða æskulýðsstörf.

Áhættuhegðun

Áhættuhegðun barns er þegar barn hegðar sér á einhvern hátt sem skaðar eða er líklegt til að skaða heilsu þess og þroska. Til dæmis vímuefnaneysla, sjálfskaði, ofbeldi gagnvart öðrum og afbrot.

Manneskja í fjötrum. Hún er með lokuð augu og er leið á svipinn og heldur þétt utan um sig. Rauður þykkur borði er vafinn utan um hana.