Hópurinn getur verið skilgreindur út frá:

  • Uppruna
  • Litarhætti
  • Kynþætti
  • Trúarbragði
  • Fötlun
  • Kyneinkennum
  • Kynhneigð
  • Kynvitund
  • Öðrum sambærilegum þáttum

Gerandi hatursglæps:

  • Persónuleg tengsl við þolanda oft engin.
  • Hefur fordóma eða hatur í garð hóps.
  • Fremur verknaðinn vegna þess að þolandi er í þeim hóp.
  • Verknaðurinn er því beindur að hópnum öllum.
  • Á einnig við ef gerandi telur að þolandi sé hluti af hópnum þó að hann sé það ekki.

Hvað gerir eitthvað að hatursglæp?

Orðið hatursglæpur kemur ekki fyrir í íslenskum lögum en tekið er fram í 70. grein almennra hegningarlaga að þegar hegning er ákveðin, þá þurfi að taka til greina „hvort brotið megi rekja til þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra sambærilegra þátta.“

Það þarf því að geta sýnt fram á að brotið hafi verið framið vegna fordóma eða haturs í garð hóps til þess að brotið sé skilgreint sem hatursglæpur.

Ofbeldi og aðrir glæpir

Þegar kemur að brotum sem eru nú þegar skilgreind refsiverð í lögum (eins og líkamsárásir, nauðganir, morð og eignaspjöll) þá getur það aukið refsingu ef glæpurinn var framinn vegna stöðu fórnarlambsins (Almenn hegningarlög, 70. gr.).

Hatursorðræða

Hatursorðræða er þegar hatri og fordómum [link] gegn hópi er dreift með tjáningu, annaðhvort að einstaka meðlimum hópsins eða almennt að hópnum.

Á Íslandi er tjáningarfrelsi en það eru samt sem áður lög og reglur sem gilda um tjáningu. Ein þeirra eru lög um hatursorðræðu en þau banna að hæðast að, rógbera, smána eða ógna einstaklingi eða hópi vegna uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúar, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar og kynvitundar (Almenn hegningarlög, 233. gr. a.)

Hatursorðræða getur meðal annars verið:

  • ummæli með orðum (bæði töluð og skrifuð)
  • myndir (eins og „meme“)
  • tákn (eins og hakakross)
  • hljóð (eins og gelt)

Þó að það séu lög um hatursorðræðu þá er málefnið flókið og ekki gefið að öll fordómafull tjáning falli undir hatursorðræðu.

Lesa meira um hatursorðræðu

Mismunun

Á Íslandi eru lög sem vernda fólk frá mismunun þegar kemur að þjónustu, verslun og aðgengi. Lögin vernda fólk frá mismunun vegna uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúar, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar og kynvitundar.

Nokkur dæmi um hvað er ólöglegt:

  • Það má ekki neita einstaklingi um að kaupa vöru ef aðrir fá að kaupa hana
  • Það má ekki neita einstaklingi um þjónustu sem er í boði fyrir aðra
  • Það má ekki neita einstaklingi um aðgang að stað sem er opinn fyrir almenningi

Almenn hegningarlög, 180. gr.