Hatursorðræða er flókið og erfitt málefni sem er áskorun fyrir nútímasamfélag.

Á Íslandi er tjáningarfrelsi en Stjórnarskrá Íslands gefur leyfi til að afmarka tjáningarfrelsi með lögum ef talin er þörf til að vernda borgara. Hatursorðræða er refsiverð samkvæmt íslenskum lögum.

Hvað þýðir orðið „orðræða“?
Orðið orðræða er oftast notað til að skilgreina hvernig talað er um ákveðið málefni. Sem dæmi þá eru flestir frekar ánægðir þegar það er sólríkur sumardagur og orðræðan um sólríka sumardaga er jákvæð. Ef einstaklingur eða hópur talar hins vegar á hatursfullan hátt, þá með notkun á hatursfullum orðum, um eitthvað þá er hægt að tala um hatursorðræðu.

Hverjir verða fyrir hatursorðræðu?

Hver sem er getur orðið fyrir hatursorðræðu en þolendur eru í flestum tilvikum hinsegin fólk, innflytjendur og aðrir jaðarsettir hópar.

Hatursorðræða beinist gegn:

  • Uppruna
  • Litarhætti
  • Kynþætti
  • Trúarbragði
  • Fötlun
  • Kyneinkennum
  • Kynhneigð
  • Kynvitund
  • Öðrum sambærilegum þáttum

Hverjir beita hatursorðræðu?

Hatursorðræða er ekki einangrað vandamál sem hægt er að setja á einn tiltekinn hóp. Allir geta tjáð hatur og fordóma í garð hópa, jafnvel þó að gerandinn sé sjálfur meðlimur í hópnum. Hópar sem verða fyrir hatursorðræðu geta líka beitt hatursorðræðu gegn öðrum jaðarhópum.

Hvar viðgengst hatursorðræða?

Hatursorðræða getur viðgengst alls staðar þar sem fólk er en er algengari á sumum stöðum en öðrum, svo sem:

  • Á samfélagsmiðlum og þá oft í hópum þar sem orðræðan er réttlætt sem málfrelsi eða grín.
  • Í athugasemdakerfum fréttamiðla.
  • Hvar sem fólk getur tjáð sig undir nafnleynd og án ábyrgðar.
  • Þar sem annað ofbeldi viðgengst almennt.
  • Í ofbeldisfullum samböndum, þá sérstaklega þegar þolandinn er af erlendum uppruna.

Hvað get ég gert ef ég verð fyrir hatursorðræðu?

Skráðu atvikið

  • Skrifaðu niður nöfn (bæði geranda og vitna), tíma, staðsetningu og hvað var sagt/gert.
  • Ef orðræðan var myndræn (sem dæmi ef hakakross er málaður á vegg), taktu þá myndir.
  • Ef orðræðan var á internetinu (eins og athugasemd eða skilaboð), taktu þá skjáskot.

Fáðu stuðning

  • Talaðu við einhvern sem þú treystir um hvað gerðist. Það er engin skömm að því að vera þolandi hatursorðræðu og það þarf að taka á málinu.

Hvert skal leita

  • Ef orðræðan átti sér stað á netinu, taktu þá skjáskot.
  • Ef orðræðan átti sér stað innan skóla og þú ert nemandi, talaðu þá við námsráðgjafa, kennara eða annan starfsmann sem þú treystir (námsráðgjafi getur alltaf vísað málinu í réttan farveg).
  • Ef orðræðan átti sér stað innan vinnustaðar, talaðu þá við yfirmann eða mannauðsstjóra (á mörgum vinnustöðum eru verkferlar fyrir svona atvik).
  • Ef orðræðan var mjög alvarleg, talaðu þá strax við lögregluna.

Sía eftir flokkum

Stofnanir sem þolendur hatursorðræðu geta leitað til

Lögreglan

Lögreglan hjálpar fólki sem verður fyrir ofbeldi. Ofbeldi í nánum samböndum er litið mjög alvarlegum augum hjá lögreglunni.

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Samtökin '78

Samtökin ’78

Samtökin 78 bjóða upp á ráðgjöf fyrir hinsegin fólk og ungmenni, meðal annars það sem hefur orðið fyrir ofbeldi í nánu sambandi.

Mannréttinda­skrifstofa

Hjá Mannréttindaskrifstofu fá innflytjendur ókeypis lögfræðiráðgjöf.

Kærunefnd jafnréttismála

Á Íslandi eru lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem banna alla mismunun byggða á kyni. Hægt er að senda kæru á vef Kærunefndar jafnréttismála.

Tjáningarfrelsi og hatursorðræða

Það er erfitt að ræða um hatursorðræðu nema ræða einnig um tjáningarfrelsi. Samkvæmt 73. grein stjórnarskrár Íslands þá eru lög gegn hatursorðræðu fullkomlega réttmæt þar sem einstaklingar þurfa að geta ábyrgst tjáningu sína fyrir dómi.

Lesa meira um tjáningarfrelsi og íslensk lög.

Er hatursorðræða stórt vandamál á Íslandi?

Hatursorðræða er vaxandi vandamál á Íslandi, þó að fæst brot séu kærð. Hatursorðræða verður algengari yfir tímabil þar sem að athygli er á jaðarsettum hópi eða á einstaklingi úr jaðarsettum hópi.

Það er mikilvægt að muna að þeir sem beita hatursorðræðu er lítill hópur sem virðist oft stærri því meðlimir hans eru háværir og eyða miklum tíma í að skrifa athugasemdir.

Umræða um vandamál er nauðsynleg til að leysa vandamálið. Umræðan ein og sér er ekki hluti af vandamálinu.

Hverjar eru afleiðingar hatursorðræðu?

Hatursorðræða er ofbeldi sem getur haft miklar afleiðingar.

  • Fólk sem verður fyrir hatursorðræðu er jaðarsett nú þegar og því viðkvæmara fyrir árásum en aðrir. Þolendum getur fundist þau ekki örugg í samfélaginu sem veldur einangrun, öryggisleysi, ótta, kvíða og þunglyndi.
  • Jaðarhópar sem telja sig ekki örugga í samfélaginu einangra sig frá því sem er missir fyrir þjóðfélagið í heild.
  • Eftir því sem hatursorðræða er algengari, því „eðlilegri“ verður hún í augum fólks sem fer kannski að trúa því sem er sagt eða fer að beita orðræðunni einnig. Hatursorðræða veldur því frekari fordómum og jaðarsetningu.
  • Óttinn við að verða fyrir hatursorðræðu getur haft sömu áhrif og hatursorðræðan sjálf. Það er því mikilvægt að allir taki þátt í að berjast gegn hatursorðræðu og láti vita að hún fái ekki að viðgangast hér á landi.

Það er margt hægt að gera ef þú verður vitni að hatursorðræðu eða vilt berjast gegn henni.

  • Taktu afstöðu gegn hatursorðræðu og fordómafullu tali opinberlega.
  • Láttu vita að þú sért ósammála þeim sem eru að dreifa fordómum, til dæmis í athugasemdakerfum.
  • Vertu til staðar fyrir þolendur.
  • Athugaðu hvort þinn vinnustaður hafi skýra verkferla ef hatursorðræða eða fordómar koma upp.

Lesa meira um leiðir til að takast á við hatursorðræðu og fordóma.