Hvernig lýsir kynferðisofbeldi gegn börnum sér?

Kynferðislegt ofbeldi er þegar kynferðislegum athöfnum, orðum eða myndum er beint að barni. Kynferðislegt ofbeldi getur átt sér stað milli fullorðins einstaklings og barns eða milli tveggja barna þar sem annar einstaklingur hefur vald yfir hinum. Stundum er tæling undanfari ofbeldisins.

Dæmi um kynferðislegt ofbeldi:

  • Barn er látið horfa á klámefni.
  • Myndir eru teknar af barni í kynferðislegum tilgangi.
  • Þuklað er á kynfærum barns eða barn látið þukla á kynfærum einhvers.
  • Kynferðislegar myndir, orð eða samræður við börn gegnum netið.
  • Unglingur er beðinn um að senda eða selja kynferðislegar myndir af sér.
  • Kynmök við barn.

Ef þú heldur að barn sé beitt kynferðisofbeldi ættirðu að tilkynna það til barnaverndar með því að hafa samband við 112

Hvernig á að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi gegn börnum?

Hér eru 5 skref til verndar börnum. Efnið er tekið af námskeiði Barnaheills: Verndarar barna.

1. Þekkjum staðreyndir og áhættuþætti

  • Kynferðisofbeldi á sér stað þar sem markaleysi, afneitun og ótti fær að viðgangast.
  • 60 til 80% gerenda er einhver sem barnið þekkir.
  • Ein af afleiðingum kynferðisbrota er forðun og félagsleg einangrun.

2. Verum vakandi og drögum úr áhættuþáttum

  • Kynhegðun þarf að kenna og börn þurfa leiðbeiningar um það eins og aðra hegðun.
  • Mikilvægt er að líta á kynferðisofbeldi sem er framið af börnum og unglingum sem hegðunarvanda frekar en ofbeldi.
  • Börn sem verða fyrir kynferðisofbeldi bera þess oftast einhver merki en það þarf að þekkja þau til koma auga á þau. Það gætu verið kvartanir, eins og undan maga- eða höfuðverkjum, sem eiga sér engar skýringar.

3. Fræðum börnin

  • Forvarnir felast í að fullorðnir verndi börn áður en þau verða fyrir ofbeldi.
  • Með því að tala opinskátt um mörk, líkama og samskipti við börn, með tilliti til aldurs og þroska, hjálpum við þeim til lengri tíma.
  • Börn sem hafa fengið fræðslu hafa meiri möguleika á að leita aðstoðar ef eitthvað gerist sem lætur þeim líða illa eða gerir þau óörugg.

4. Hlustum, trúum og styðjum börn

  • Að trúa frásögn barna um ofbeldi sem þau hafa verið beitt eykur líkurnar á að eitthvað sé gert strax í málinu og börn séu vernduð.
  • Ef börn opna á kynferðisbrot og viðkomandi er ekki tilbúinn til að hlusta eða bregst rangt við geta þau lokað.
  • Grunnurinn er traust og að vera til staðar og hlusta þegar barnið gefur skilaboð um að það sé kannski eitthvað skrýtið að gerast.

5. Bregðumst við og tilkynnum

  • Ef barn leitar til fullorðins þarf að hafa í huga að sýna viðeigandi framkomu, halda ró sinni, gæta að réttum viðbrögðum og hlusta vel á frásögn barnsins.
  • Mikilvægt er að fylgja grunsemdum, bregðast hratt og skjótt við og láta barnið alltaf njóta vafans.
  • Þegar brugðist er við kynferðisofbeldi gegn barni á ábyrgan hátt er ekki bara einu barni bjargað heldur mörgum til viðbótar. Að baki eins geranda geta verið mörg börn.

Öryggi í netsamskiptum barna

Börn allt niður í 7 ára aldur hafa orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi. Mikilvægt er að kenna börnum og unglingum leiðir til að koma í veg fyrir stafræn brot og leiðir til að takast á við það ef það gerist.

Tæling

Þegar eldri manneskja tælir ungling eða viðkvæma manneskju til kynferðislegra athafna með blekkingu eða gjöfum kallast það tæling. Tæling er ofbeldi og er ólögleg.

Manneskja situr flötum beinum á gólfinu með annan fótinn krossaðan yfir. Hún er leið á svip og með lokuð augun. Hún er með dökkt sítt hár, er í blárri peysu, dökkum buxum og brúnum skóm. Hún heldur hægri hendinni upp að eyranu en heldur farsímannum upp fyrir framan sig í vinstri hendinni.