Samkomulag um ofbeldislausa og örugga skemmtistaði

Með samkomulaginu er stefnt að því að fyrirbyggja allt mögulegt ofbeldi á skemmtistöðum. Ofbeldi eins og kynbundin og kynferðisleg áreitni, vændi og mansal, sem og ofbeldi sem byggist á fordómum eða hatri, svo sem í garð innflytjenda eða hinsegin fólks, er ekki liðið.

Allt starfsfólk skemmtistaða á rétt á því að:

  • Starfa án þess að verða fyrir ofbeldi eða hótunum.
  • Starfa án þess að verða fyrir kynbundinni eða kynferðislegri áreitni.
  • Finna til öryggis í starfi.

Starfsfólk skemmtistaða:

  • Kallar til lögreglu ef upp kemur ofbeldisbrot, kynferðisbrot og varsla eða neysla ólöglegra vímuefna.
  • Sýnir ekkert umburðarlyndi gagnvart ofbeldi og öllum mögulegum birtingarmyndum þess, þar með talið kynferðisbrot, kynbundið og kynferðislegt áreiti, sem og annað áreiti og ofbeldi sem byggist á fordómum eða hatri, til dæmis í garð innflytjenda eða hinsegin fólks.
  • Eru með markvisst, skipulagt og tímasett eftirlit með salernum, meðal annars til þess sporna við ofbeldisbrotum, kynferðisbrotum og vörslu eða neyslu ólöglegra fíkniefna.
  • Tryggja að dyr og læsingar að salernum séu þannig að dyraverðir og starfsfólk geti opnað dyr utan frá svo sporna megi við ofbeldis- og kynferðisbrotum.
  • Útbúa salerni þannig að ekki sé hægt að komast yfir eða undir skilrúm þeirra en að auðvelt sé að sjá hvort og hversu margir eru þar svo sporna megi við ofbeldis- og kynferðisbrotum.

Starfsfólk kallar til lögreglu ef upp kemur:

  • Ofbeldisbrot.
  • Kynferðisbrot.
  • Varsla eða neysla ólöglegra vímuefna.

Ef þú verður fyrir eða verður vitni að ofbeldi leitaðu til:

Stígamót

Stígamót hjálpa öllum (konum, körlum og kynsegin fólki) sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Lögreglan

Lögreglan hjálpar fólki sem verður fyrir ofbeldi. Ofbeldi í nánum samböndum er litið mjög alvarlegum augum hjá lögreglunni.

Neyðarmóttaka vegna kynferðisofbeldis

Neyðarmóttakan tekur á móti öllum þeim sem hafa orðið fyrir nauðgun, tilraun til nauðgunar eða öðru kynferðisofbeldi.

Dyraverðir

Ábyrgð dyravarða er að passa:

  • Aldur gesta.
  • Fjölda gesta.
  • Opnunartíma.
  • Inn- og útburð áfengis.
  • Að allir gestir geti verið öruggir og geti skemmt sér án ofbeldis.
  • Annað sem varðar reglur staðarins og lög og reglur.

Góð samskipti, minna ofbeldi

Dyraverðir stunda góð samskipti og eru yfirvegaðir, kurteisir og staðfastir.

Skaðaminnkun er lykillinn í aðstæðum þar sem fólk er farið að reyna að slasa hvert annað. Ef hægt er að tala fólk og róa það er það besti kosturinn.

Dyraverðir hafa samband við lögreglu þegar vandamál eru orðin of stór.

Góð samskipti eru: spurningar og beiðnir, bent á staðreyndir og afleiðingum lýst. Eðlileg viðbrögð og útskýringar eru lykillinn.

Dæmi:

  • Þú ert búinn að vera í átökum.
  • Ég horfði á þig áreita/skemma ...
  • Að okkar mati ertu búinn að ganga of langt.
  • Reglur staðarins eru skýrar og þess vegna… (færir ábyrgðina á reglurnar).
  • Vinsamlegast hættu þessu.
  • Vinsamlegast yfirgefðu staðinn.

Slæm samskipti: ásakanir, sleggjudómar, heimtingar og hótanir.

Dæmi:

  • Drullaðu þér í burtu.
  • Þú ert fullur, fáviti þinn.
  • Þú ert búinn að drulla upp á bak.

Ef einhver leitar til þín vegna kynferðislegrar áreitni, kynferðisofbeldis eða vegna byrlunar

  • Hlustaðu, sýndu skilning og komdu fram við manneskjuna af virðingu.
  • Hringdu í 112.
  • Hlúðu að manneskjunni eins og þú getur, ekki skilja hana eftir eina og varnarlausa.
  • Ef um nauðgun er að ræða er hægt að hringja í neyðarmóttöku vegna nauðgana á Landsspítalnum í Fossvogi. Síminn er 543 1000
  • Punktaðu hjá þér upplýsingar um þann sem kvartað er yfir. Skrásettu eins mikið og hægt er. Þú getur skrifað lýsingu á manneskjunni, nafn þeirra og atburðarás. Þar sem þú ert edrú ertu líklegri til að muna og taka eftir hlutum sem geta gagnast í rannsókn. Þessar upplýsingar geta skipt máli í ákæruferli.
  • Vísaðu þeim sem kvartað er yfir út af staðnum.

Ýmsar birtingarmyndir kynferðisofbeldis

Kynferðisofbeldi

Kynferðisofbeldi er það þegar einhver fær þig til að gera eitthvað kynferðislegt sem þú vilt ekki gera, káfar á þér eða áreitir þig á kynferðislegan hátt.

Nauðgun

Enginn hefur rétt á að þvinga aðra manneskju til að gera eitthvað kynferðislegt sem hún vill ekki gera. Þegar kynmök eru höfð við manneskju án samþykkis er það nauðgun.

Kynferðisleg áreitni

Þegar farið er yfir mörk á kynferðislegan hátt er það kynferðisleg áreitni.

Byrlun

Byrlun er þegar einhver gefur annarri manneskju lyf, áfengi eða vímuefni án hennar samþykkis eða vitundar.

Ýmis atriði fyrir dyraverði að hafa í huga

  • Dyraverðir geta spurt öll um skilríki og það á líka við um gesti sem eru inni á staðnum. Lögleg skírteini eru: ökuskírteini, vegabréf og nafnskírteini. Ekki má nota debetkort, bókasafnskort, félagakort eða annað eins.
  • Starfsfólk skemmtistaða er í lykilstöðu til að aðstoða við lausnir lögreglumála. Gott er að hafa í huga að markmið lögreglu er að leysa afbrot.
  • Fyrstu viðbrögð dyravarða og annars starfsfólks skipta miklu máli. Yfirveguð og róleg aðkoma að málum og gott samstarf við lögreglu gerir vinnu lögreglu auðveldari.
  • Dyraverðir og annað starfsfólk er oft eina fólkið sem er edrú. Gott er að punkta niður ef eitthvað sérstakt gerist.
  • Ef upptaka næst af atviki er mikilvægt að upptakan glatist ekki.
  • Lögreglan í sínu eftirlitshlutverki hefur óheftan aðgang að skemmtistaðnum og því sem undir hann heyrir.
  • Dyravörðum er heimilt að vísa fólki út af stöðum vegna vímuefnaneyslu eða sölu.
  • Hægt er að láta lögreglu vita af vímuefnamálum með nafnleynd eða undir nafni.
  • Hátalarar utan við skemmtistað án leyfis varða sekt.

Ungmenni

  • Yngri en 18 ára er bannað að vera á veitingastað með áfengisveitingaleyfi eftir 22 á kvöldin nema í fylgd með foreldri, öðrum forráðamönnum, ættingja eða maka sem er 18 ára eða eldri.
  • Undanþága er gefin í sumum tilvikum eins og á skóladansleikjum þar sem ekki eru áfengisveitingar.
  • Ef ungmennalög eru brotin er sektað.
  • Barþjónn sem selur áfengi til yngri en 20 ára fær persónulega sekt ásamt því að staðurinn fær skýrslu á sig.

Það má ekki:

  • Veita áfengi á öðrum tímum en skráð er í rekstrarleyfi staðarins.
  • Veita áfengi á annan hátt en er skráð er í rekstrarleyfi staðarins.
  • Veita aðrar áfengistegundir en eru skráðar í rekstrarleyfi staðarins.

Viðurlög vegna brota

  • Lögreglan á að loka staðnum samkvæmt lögum ef rekstrarleyfi er ekki gilt eða starfsemi staðarins fer út fyrir mörk útgefins rekstrarleyfis.
  • Fyrst eru skyndilokanir en svo er svipting rekstrarleyfis ef um ítrekuð brot er að ræða.
  • Sektir eru við sölu áfengis undir aldri og ef hátalari er utan við staðinn.
  • Sektað er fyrir svo til öll brot sem varða skyldur dyravarða (og annarra þegar kemur að meðferð og afhendingu áfengis).
  • Svipting dyravarðarréttinda er eina refsingin sem getur komið til greina eins og er.

Við erum öll með fordóma

Fordómar og staðalmyndir trufla dómgreind okkar og auka áreitni og ofbeldi gagnvart sumum hópum.