Grunar þig að einhver sé beittur ofbeldi í sambandi?

Það er allt í lagi að spyrja manneskju ef þú hefur grun um að hún sé beitt ofbeldi. Þú gætir óttast að segja eitthvað vitlaust en á meðan þú heldur ró þinni, hlustar, trúir og kennir henni ekki um, er það mikill stuðningur. Flestir eru fegnir að hafa tækifæri til að tala um hvað þeir eru að ganga í gegnum.

Manneskja sem verður fyrir ofbeldi í sambandi gæti:

  • Hætt að hitta vini og fjölskyldu án augljósrar ástæðu.
  • Verið áhyggjufull um að gera aðilann reiðan.
  • Ítrekað afsakað neikvæða hegðun aðilans.
  • Virst hrædd eða taugaóstyrk í kringum vissa aðila.
  • Verið með för eða sár á líkamanum sem ekki er hægt að útskýra.
  • Verið áhyggjufull yfir að verið sé að fylgjast með henni, elta hana eða stjórna henni á einhvern hátt.

Manneskja sem beitir ofbeldi gæti:

  • Talað oft niður til hinnar manneskjunnar.
  • Sett mikið af reglum um hvernig hin manneskjan á að hegða sér.
  • Stjórnað hegðun, eins og hvert einhver fer, hvern hann hittir og talar við, hvernig peningum er eytt og hvernig eða hvenær hún notar símann sinn, bíl eða tölvu.
  • Orðið reið þegar reglunum er ekki framfylgt.
  • Hegðað sér á ógnandi hátt.
  • Hótað að meiða hina manneskjuna.
  • Hótað sjálfsvígi þegar hún fær ekki sínu framfylgt.

9 ástæður fyrir að fólk hættir ekki strax í ofbeldissambandi

Að hjálpa ástvini í ofbeldissambandi

Að komast að því að einhver nákominn manni hafi orðið fyrir ofbeldi er erfitt. Kannski viltu hjálpa en veist ekki alveg hvað þú getur gert.

Fólki sem verður fyrir ofbeldi í nánu sambandi líður oft eins og það sé fast og hafi enga stjórn. Þessi líðan getur versnað ef þú ýtir á það að bregðast við eins og þú heldur að sé þeim fyrir bestu. Það er mjög mikilvægt að styðja fólk í að taka sínar eigin ákvarðanir þegar það er tilbúið.

Mundu að heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum er ekki bara líkamlegt. Það getur líka verið andlegt, kynferðislegt, stafrænt, fjárhagslegt og getur falið í sér vanrækslu eða eltihrelli.

Einfaldar leiðir til að hjálpa:

  • Í neyðartilvikum eða ef einhver er í yfirstandandi hættu, hringdu strax í 112.
  • Trúðu manneskjunni og taktu mark á ótta hennar. Þetta er mjög mikilvægt, alveg sama hvaða persónulegar skoðanir þú hefur á manneskjunni eða þeim sem beitir ofbeldinu.
  • Hlustaðu án þess að trufla eða dæma.
  • Aldrei kenna þeim sem verða fyrir ofbeldi um það sem hefur gerst. Ofbeldi er aldrei í lagi.
  • Aldrei afsaka þau sem beita ofbeldi.
  • Virtu að fólk gæti ekki verið tilbúið að fara úr sambandinu eða að það gæti ekki verið öruggt. Ekki neyða neinn til að gera það sem þú heldur að sé best.
  • Skoðaðu með þeim öryggisáætlun og hvernig eigi að passa upp á öryggi á tækjum.
  • Hjálpaðu við að skoða hvaða úrræði eru í boði. Bjarkarhlíð í Reykjavík og Bjarmahlíð á Akureyri bjóða upp á heildstæða þjónustu fyrir þolendur ofbeldis.
  • Hjálpaðu við praktíska hluti eins og að passa börn, skutla, panta tíma og þess háttar.

Þú sýnir stuðning með því að halda ró þinni, hlusta, trúa og ekki kenna þeim um það sem gerðist.

Hvernig á að spyrja hvort einhver sé beittur ofbeldi?

Ef þig grunar að verið sé að beita einhvern sem þú þekkir ofbeldi, er eina leiðin til að vera viss að spyrja. Það gæti verið erfitt en oftast er fólk fegið að fá að tala um ástandið.

Það skiptir máli hvernig þú talar við og hlustar á manneskju sem hefur orðið fyrir ofbeldi. Veldu tíma í ró og næði. Leyfðu manneskjunni að tala á eigin hraða. Ekki ýta á hana að segja meira en hún er tilbúin til.

Ef manneskjan bregst ekki við eins og þú vonaðir, ekki taka því persónulega. Láttu vita að þú verðir alltaf til staðar ef hana langar að tala um þetta eða hún þarfnast hjálpar á einhvern hátt.

Þú getur prófað að spyrja:

  • Mér hefur fundist eins og þér líði stundum illa. Er allt í lagi hjá þér?
  • Ég tók eftir marblettum á þér. Hvernig gerðist það? Var einhver sem gerði þetta við þig?
  • Ég hef tekið eftir því að þú virðist óttast maka þinn (eða þá manneskju sem þig grunar að sé að beita ofbeldinu). Er það rétt hjá mér? Er allt í lagi?

Búðu þig undir að hlusta en ekki neyða neinn til að tala sem er ekki tilbúinn.

Ef þú vilt fá frekari ráðgjöf geturðu haft samband við Bjarkarhlíð í Reykjavík eða Aflið á Akureyri sem bjóða upp á stuðning við aðstandendur þolenda ofbeldis.

Hús Aflins á Akureyri

Aflið á Akureyri

Aflið hjálpar fólki sem hefur orðið fyrir hvers konar ofbeldi.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins ef þú vilt tala við einhvern. Það er opið allan sólarhringinn. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Andlegt ofbeldi

Andlegt ofbeldi er þegar einhver hótar þér, gerir lítið úr þér eða lætur þér líða illa. Það getur verið bæði með orðum og hegðun.

Manneskja situr í hjólastól. Hún snýr frá okkur og horfir upp í vindinn. Mikið og liðað hár sveiflast í vindinum.