Beint í efni

Það má ekki beita þig eða aðra ofbeldi

Það getur verið erfitt að trúa því að einhver vilji meiða eða hræða aðra. En fólk gerir stundum svoleiðis til að stjórna öðrum. Það kallast ofbeldi. Það er aldrei í lagi að beita ofbeldi.

Það eru til margar gerðir af ofbeldi.

  • Andlegt ofbeldi er þegar einhver notar ljót orð og hótanir til að láta öðrum líða illa.
  • Líkamlegt ofbeldi er þegar einhver meiðir annan með því að slá, sparka eða henda hlutum í aðra.
  • Kynferðislegt ofbeldi er það þegar einhver vill snerta mann eða fá mann til snerta sig og að það sé leyndarmál.
  • Stafrænt ofbeldi, eða netofbeldi, er þegar einhver beitir ofbeldi á netinu, til dæmis með ljótum kommentum eða sendir þér nektarmyndir eða biður þig um að senda sér nektarmyndir af þér.

Það er líka ofbeldi að þurfa að horfa á einhvern sem manni þykir vænt um verða fyrir ofbeldi.

Það eru margir sem geta hjálpað þeim sem verða fyrir ofbeldi, ef sagt er frá því. Fólk sem meiðir og særir getur líka fengið hjálp. Það er ekki endilega tekið í burtu heldur getur það fengið hjálp til að breyta hegðun sinni.

Ofbeldi má ekki vera leyndarmál

Það skiptir miklu máli að segja frá þegar ofbeldi á sér stað. Þá er hægt að hjálpa þeim sem verða fyrir ofbeldinu. Meira að segja þeir sem eru að meiða og særa geta fengið hjálp.

Ef þú verður fyrir ofbeldi, eða þekkir barn eða ungling sem verður fyrir ofbeldi, er best að tala um það við einhvern fullorðinn sem þú treystir, eins og foreldra þína. Ef það gengur ekki geturðu talað við einhvern í skólanum, eins og kennarann þinn eða hjúkrunarfræðing.

Segðu frá

Ef þú eða einhver sem þú þekkir verður fyrir ofbeldi er best að segja einhverjum fullorðnum sem þú treystir frá. Það getur verið einhver í fjölskyldunni þinni, kennari í skólanum eða foreldrar vina þinna. Ef það er enginn sem þér finnst þægilegt að tala við geturðu talað við barnanúmerið 112. Þá fær fjölskyldan stuðning til að leysa vandamálið.

Einelti

Þegar einn eða fleiri eru oft leiðinlegir við sömu manneskjuna er það einelti. Einelti getur verið líkamlegt eins og að sparka eða hrinda. Einelti getur líka verið að stela dóti eða skemma það, uppnefna, stríða, baktala, útiloka úr vinahópi eða að láta aðra gera eitthvað sem þeir vilja ekki. Það er aldrei í lagi að leggja einhvern í einelti.

Ef þú horfir á og gerir ekki neitt ertu líka að taka þátt.

Vanda Sig segir okkur hvernig við getum valið að vera góðar manneskjur og taka ekki þátt í einelti.

Heimilisofbeldi

Það er kallað heimilisofbeldi þegar sá sem beitir ofbeldinu er skyldur eða tengdur þér. Ofbeldið getur verið líkamlegt, eins og að berja eða hrinda, en það getur líka verið hótanir og ljót orð. Heimilisofbeldi getur því miður gerst í hvernig fjölskyldum sem er. Það er líka ofbeldi að horfa á einhvern annan verða fyrir ofbeldi

Mundu að ofbeldið er aldrei þér að kenna. Fullorðnir eiga að passa að börnum líði vel og fullorðnir verða að leysa vandann. Fáðu hjálp með því að segja frá, það er alltaf einhver sem getur hjálpað.

Kynferðislegt ofbeldi

Það sem er undir nærfötunum þínum er þitt einkasvæði. Enginn má láta þig gera eitthvað sem lætur þér líða illa eða þú skammast þín fyrir. Það er aldrei þér að kenna ef einhver kemur illa fram við þig. Segðu alltaf frá. Það er alltaf einhver sem getur hjálpað.

Þessi teiknimynd er um hugrakka stelpu sem er beitt kynferðislegu ofbeldi. Hún segir frá og fær hjálp.

Sjálfsvirðing, ofbeldi og að setja mörk

Þótt líkami þinn sé ekki eins og líkamarnir sem við sjáum í sjónvarpinu er hann alveg jafn fallegur. Sjónvarp og tölvuleikir ýkja oft hvernig fólk lítur út og láta sem við öll séu eins. Klám er ýktasta útgáfan af öllu saman og er ekki eins og kynlíf.

Ofbeldi er alls konar. Það getur verið líkamlegt eins og að slá eða sparka, eða andlegt, eins og að segja einhverjum að hann sé ljótur. Kynferðislegt ofbeldi er ef einhver snertir einkastaðina þína, sendir þér nektarmyndir eða biður um nektarmynd af þér.

Að setja mörk er að láta láta aðra vita hvað maður vill og vill ekki. Það er alltaf best að standa með sjálfum sér svo manni líði vel.

Stattu með þér! Stuttmynd um útlit, fyrirmyndir, líkamann, ofbeldi og að setja mörk.

Hvernig krakkar nota samfélagsmiðla

Nemendur í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði segja frá því hvernig þau nota og upplifa samfélagsmiðla af ýmsum gerðum eins og Facebook, Twitter og Instagram. Sömu ráð eiga við um Snapchat og TikTok.

Ef þú sérð eitthvað á netinu sem þér líður illa yfir og þú vilt fá aðstoð með geturðu tilkynnt það til ábendingalínu Barnaheilla.

Úrræði

Umboðsmaður barna

Umboðsmaður barna er opinber talsmaður barna og vinnur að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna.

Sjúkt spjall

Nafnlaust netspjall fyrir ungmenni til að ræða áhyggjur af samböndum, samskiptum eða ofbeldi.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins sem er til staðar allan sólarhringinn ef þú vilt tala við einhvern. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.