Beint í efni

Ofbeldi er alls konar

Ofbeldi getur verið líkamlegt, kynferðislegt og andlegt. Það getur líka verið stafrænt og fjárhagslegt. Ofbeldi getur gerst inni á heimilum eða úti á skólalóð, fullorðnir geta beitt unglinga ofbeldi eða unglingar hvorn annan. Ofbeldi er alls konar.

Það getur oft verið erfitt að fatta hvað sé heilbrigt eða óheilbrigt í samskiptum og hvenær það er ofbeldi. Ef einhver gerir eitt eða fleira af þessu við þig er það líklegast ofbeldi:

 • Hótar þér.
 • Meiðir þig með því að sparka, lemja eða hrinda.
 • Missir stjórn á skapi sínu.
 • Niðurlægir þig.
 • Ásakar þig um eitthvað sem þú hefur ekki gert.
 • Einangrar þig frá fjölskyldu eða vinum.
 • Sýnir brjálæðislega afbrýðisemi.
 • ‍Skoðar símann þinn eða tölvupóst án leyfis.
 • Segir þér hvað þú átt að gera eða hvernig þú átt að haga þér.
 • Pressar á þig eða neyðir þig til að stunda kynlíf.
 • Sendir þér óumbeðna nektarmynd eða þrýstir á þig að fá nektarmynd.
 • Verslar með kortinu þínu án leyfis.

Þetta eru bara örfá dæmi. Endilega skoðaðu meira á þessari síðu til að kynna þér betur hvernig ofbeldi lýsir sér.

Segðu frá

Ef þú eða einhver sem þú þekkir hefur orðið fyrir ofbeldi er best að tala um það við einhvern sem þú treystir. Til dæmis við einhvern í fjölskyldunni, kennara, námsráðgjafa, skólasálfræðing, skólahjúkrunarfræðing eða þjálfara. Þeir sem beita ofbeldi geta líka fengið hjálp.

Það er fullt af fólki sem er tilbúið að hlusta á þig og hjálpa.

 • Sjúkt spjall er nafnlaust netspjall fyrir ungmenni (yngri en 20 ára) til að ræða áhyggjur af samböndum, samskiptum eða ofbeldi.
 • Hjálparsími og netspjall 1717 er opið allan sólarhringinn. Þar er hægt að tala í trúnaði um hvað sem er.
 • Sími og netspjall 112. Þá er fenginn ráðgjafi frá barnavernd eða félagsþjónustu sem veitir þér og fjölskyldunni þinni stuðning. Það þarf að gefa upp nafn en þú getur beðið um að enginn annar fái að vita það.
 • Bergið headspace er ókeypis stuðnings- og ráðgjafasetur sem aðstoðar ungt fólk. Þar geturðu bókað tíma hjá ráðgjafa sem fer yfir vandann, veitir stuðning og ráðgjöf.
 • Hinsegin félagsmiðstöð er fyrir öll ungmenni á aldrinum 13-17 ára sem vilja spjalla í félagsmiðstöð þar sem öll eru velkomin.
 • Heilsugæslustöðvar eru flestar með sérstaka móttöku fyrir ungt fólk á aldrinum 13-20 ára til að ræða um heilsu og líðan.

Við ætlum að tala aðeins um ofbeldi. Vitið þið hvað ofbeldi er?

Hvenær verða unglingar sakhæfir?

Unglingar verða sakhæfir 15 ára gamlir. Það þýðir að þá má refsa þeim ef þeir brjóta af sér. Það má handtaka þá og úrskurða í gæsluvarðhald en þá þarf að tilkynna barnaverndarnefnd og foreldrum um það vegna þess að sérreglur gilda um unglinga til 18 ára aldurs.

Er þetta ást?

Er í lagi að nota silent treatment í sambandi? En að hóta að skaða sig ef makinn fer frá manni?

Stafrænt kynferðisofbeldi

Stafrænt kynferðisofbeldi er til dæmis að dreifa nektarmyndum af öðrum í leyfisleysi, senda óumbeðnar nektarmyndir og kynferðisleg skilaboð, þrýsta á aðra að senda sér kynferðislegar myndir, til dæmis með því að vilja borga pening fyrir þær, eða nota nektarmyndir til þess að hrella, hóta eða kúga aðra.

Þessi listi er ekki tæmandi, enda er tæknin sífellt að breytast og þar af leiðandi breytist stafrænt kynferðisofbeldi líka.

Þættir byggðir á sönnum frásögnum úr íslenskum raunveruleika þegar nektarmyndir sem eru sendar í trúnaði fara á flakk.

Óviðeigandi efni á netinu varðandi börn og unglinga

Ef þú sérð eða veist um eitthvað óviðeigandi efni varðandi börn og unglinga á netinu geturðu notað Ábendingalínu Barnaheilla sem kemur því áfram til lögreglu.

Kynferðisofbeldi

Ef þú verður fyrir nauðgun, tilraun til nauðgunar eða öðru kynferðisofbeldi ættirðu að fara sem fyrst á Neyðarmóttöku kynferðisofbeldis á Landspítalanum í Fossvogi eða á sjúkrahúsinu á Akureyri. Þar eru hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og læknar sem geta hjálpað andlega og líkamlega.

Einelti er ógeðslegt

Einelti er líka ofbeldi. Að horfa á einelti og gera ekki neitt er það sama og taka þátt. Þú getur haft áhrif og komið í veg fyrir einelti. Til þess þarf að vita hvað einelti er og passa að aðrir viti það líka. Krakkar í 8. bekk Hörðuvallaskóla í Kópavogi stofnuðu klúbb sem heitir Einelti er ógeðslegt. Í þessu myndbandi fjallar klúbburinn um mismunandi tegundir eineltis.

Ofbeldi meðal ungmenna

Sprottið hafa upp síður og lokaðir hópar á samfélagsmiðlum með myndböndum af unglingum í grófum slagsmálum á meðan aðrir standa aðgerðarlausir í kring eða hvetja þau til dáða. Svona líkamsárásir geta haft mjög alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir þá sem verða fyrir ofbeldinu og þá sem beita því.

Ef þú verður vitni að slagsmálum er best að ganga í burtu og láta lögreglu vita með því að hafa samband við 112. Það gæti bjargað mannslífi. Ef þú veist um myndband á netinu sem sýnir slagsmál ættirðu að tilkynna það til lögreglu.

Ofbeldi í samböndum

Ofbeldi í samböndum, líka kallað heimilisofbeldi, er þegar sá sem beitir ofbeldinu er skyldur eða tengdur þér. Til dæmis fjölskyldumeðlimur, núverandi eða fyrrverandi kærasti eða kærasta eða vinur.

Að horfa upp á aðra á heimilinu vera beitta ofbeldi er líka ofbeldi.

Sóley er 13 ára stelpa sem ólst upp við heimilisofbeldi. Hún hefur nú flutt á annað heimili með mömmu sinni. Í dag er hún glöð og býr við öryggi.

Segðu frá

Segðu frá og leitaðu þér hjálpar ef þú hefur orðið fyrir ofbeldi.

Þekkir þú birtingarmyndir ofbeldis?

Skoða fleiri dæmi

Andri

Andri var mjög glaður þegar hann sópaði myndinni af Helgu til hægri og komst að því að hún hafði líka áhuga á honum. Þau voru í sama menntaskóla, Helga einu ári eldri, vinsæl og miklu sætari – að Andra mati. Þau byrja að spjalla gegnum appið og fara fljótlega að daðra.

En nú líður Andra mjög illa, Helga hafði beðið hann um nektarmynd og ætlaði að senda af sér til baka sem hún gerði svo aldrei. Helga sendi myndina á vini sína og nú eru þeir allir að mæla út nakinn líkama Andra. Helgu finnst þetta allt saman fyndið og gerir lítið úr mótmælum Andra. Hún birti meira að segja spjallið þeirra á Insta og allir krakkarnir í skólanum eru búnir að læka það.

Er þetta ofbeldi?

Bergið headspace

Bergið er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins sem er til staðar allan sólarhringinn ef þú vilt tala við einhvern. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Vopnabúrið

Vopnabúrið er líkamsræktar- og tómstundastöð sem býður upp á ráðgjöf og stuðning við börn og unglinga sem glíma við einhvers konar vandamál.