Ofbeldi gegn eldra fólki

Samkvæmt rannsóknum er eldra fólk líklegra til að verða fyrir ofbeldi en yngra fólk. Breytingar á fjölskyldumynstri í nútímasamfélagi geta orsakað tilfinningalegar og fjárhagslegar þrengingar fyrir eldri borgara. Staða eldra fólks getur orðið enn viðkvæmari þegar það óttast að frekari einsemd bíði þeirra ef það kvartar yfir yfirgangi eða hreinu ofbeldi af hálfu ættmenna eða umönnunaraðila.

Ofbeldi getur verið alls konar.

  • Andlegt ofbeldi er þegar einhver hótar þér, gerir lítið úr þér eða lætur þér líða illa.
  • Líkamlegt ofbeldi það þegar einhver meiðir þig, til dæmis klípur, kýlir, heldur þér, sparkar, lemur þig eða misnotar lyfin þín. Áverkar, skurðir, óútskýrð meiðsl, brunasár og lélegt ástand húðar geta verið merki um líkamlegt ofbeldi.
  • Kynferðislegt ofbeldi er það þegar einhver káfar á þér eða fær þig til að gera eitthvað kynferðislegt sem þú vilt ekki gera eða getur ekki samþykkt það vegna skerðingar.
  • Fjárhagslegt ofbeldi er þegar einhver svíkur af þér peninga, stelur eða misnotar peningana þína eða skapar þrýsting vegna ráðstöfunar á peningum þínum. Það er líka fjárhagslegt ofbeldi ef einhver sér um fjármálin þín og útvegar ekki nauðsynjar eða lætur þig undirrita skjöl sem þú ert ekki með skilning á.
  • Stafrænt ofbeldi er þegar einhver notar tæki eða tækni til að fylgjast með þér, ógna þér, áreita þig eða niðurlægja þig.
  • Vanræksla er þegar líkamlegri umönnun eða lyfjagjöf er ekki sinnt sem skyldi. Til dæmis þegar aldraður einstaklingur er sýnilega vannærður, þjáist af vökvaskorti, er illa klæddur eða fær ekki umönnun vegna veikinda eða meiðsla.

Þú getur haft samband við 112 ef þér finnst að einhver hafi brotið á rétti þínum eða beitt þig ofbeldi.

Þú getur talað við 112 gegnum netspjall ef þig grunar að þú sért að verða fyrir ofbeldi.

Lögreglan bætir þjónustuna við eldra fólk sem verður fyrir ofbeldi

Undanfarin ár hefur orðið mikil breyting á því hvernig lögreglan nálgast ofbeldismál. Áður fyrr fengu gerendur meiri athygli en með átaki og fræðslu innan lögreglunnar hefur athyglinni verið beint meira að þolendunum. Nýlega kom út skýrsla á vegum greiningardeildar Ríkislögreglustjóra sem dregur upp skýra mynd af stöðu ofbeldis í garð eldra fólks, ekki síst í ljósi áhrifa kórónaveiru á íslenskt samfélag.

Núna eru ýmis verkefni í gangi hjá yfirvöldum til að berjast gegn ofbeldi gegn eldra fólki. Markmiðið er að vernda betur viðkvæman hóp eldri borgara fyrir ofbeldi og að gera þeim auðveldara að fá hjálp.

Ofbeldi gegn eldra fólki er alvarlegt mál

Eldra fólk hefur tekið þátt í vitundarvakningu um ofbeldi gegn eldra fólki. Þar var sjónum beint að mismunandi tegundum ofbeldis, þá sérstaklega á að vanræksla og misnotkun fjármuna er líka ofbeldi. Viðhorf eldra fólks til ofbeldis er líka frábrugðið viðhorfi þeirra yngri.

Fjárhagslegt ofbeldi gegn eldra fólki er til dæmis þjófnaður, svik, misnotkun fjármuna eða þrýstingur vegna ráðstöfunar fjármuna.

Vanræksla og skortur á virðingu fyrir reisn og sjálfsákvörðunarrétti eldra fólks flokkast líka sem ofbeldi.

Þekkir þú birtingarmyndir ofbeldis?

Skoða fleiri dæmi

Ólafur

Ólafur er nægjusamur maður á níræðisaldri sem býr á eigin heimili. Eitt barnabarna hans, Hrafnhildur, hjálpar honum oft við hluti sem eru honum erfiðir, eins og að fara út í búð og borga reikninga. Ólafur lét Hrafnhildi fá aðgang að netbankanum sínum í þessum tilgangi.

Nokkrum mánuðum seinna þegar Ólafur ætlaði að kaupa sér nýjan sófa kom í ljós að Hrafnhildur hafði millifært reglulega af reikningnum hans yfir á sig.

Er þetta ofbeldi?

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins ef þú vilt tala við einhvern. Það er opið allan sólarhringinn. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Bjarmahlíð á Akureyri

Bjarmahlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Ofbeldi er alls konar

Það kallast ofbeldi í nánu sambandi eða heimilisofbeldi þegar sá sem beitir ofbeldinu er skyldur eða tengdur þér, til dæmis maki, fyrrverandi maki, fjölskyldumeðlimur eða umönnunaraðili. Ofbeldi á sér margar birtingarmyndir.

Manneskja í fjötrum. Hún er með lokuð augu og er leið á svipinn og heldur þétt utan um sig. Rauður þykkur borði er vafinn utan um hana.