Það má selja vændi en ekki kaupa það

Á Ísland er ólöglegt að borga fyrir kynferðisþjónustu. Sá sem gerir það er í hættu á að fá sekt eða jafnvel fangelsisdóm allt að einu ári.

Hins vegar er ekki ólöglegt að fá borgað. Þótt það geti verið freistandi, ef fólk er í peningavandræðum til dæmis, getur það haft alvarlegar afleiðingar. Þeim sem borgar gæti fundist þau þar með hafa leyfi til að gera hvað sem er. Það er ekki rétt. Þó að þú hafir fengið einhverja greiðslu frá annarri manneskju þýðir það ekki að þú þurfir að gera allt sem hún vill.

Þó að einhver hafi borgað þá má alltaf segja nei.

Til að geta stundað kynlíf þurfa allir þátttakendur að veita samþykki fyrir því sem þar fer fram. Samþykki sem veitt er með skilyrðum eða eftir fortölur er ekki veitt af fúsum og frjálsum vilja. Greiðsla er skilyrt samþykki sem breytir valdajafnvægi milli einstaklinga. Ef einhver borgar þá vill hann að eitthvað sé gert fyrir sig og sá sem þiggur greiðsluna á oft ekki annarra kosta völ.

Þær athafnir sem fara fram í vændi krefjast þess að fólk sé í mjög nánum samskiptum, oft í mjög varnarlausri stöðu. Undir venjulegum kringumstæðum myndu slík samskipti bara fara fram á milli einstaklinga sem treysta hver öðrum vel. Þegar traust er ekki fyrir hendi, þegar annar aðilinn getur nýtt sér varnarleysi hins, til dæmis með því að fara fram á eitthvað sem ekki var um samið, getur það valdið miklum skaða hjá þeim sem finna sig í þeirri stöðu.

Fólk sem hefur verið í vændi lítur yfirleitt á það sem einhvers konar tímabundna ráðstöfun því það er í vandræðum. Fólk upplifir að það hafi ekki val um annað þó það myndi frekar vilja.

Rannsóknir sýna að afleiðingar vændis eru miklar og langvinnar fyrir þau sem hafa verið í vændi. Sjálfsvígshugleiðingar, sjálfsskaði, einangrun og líkamlegir verkir eru jafnvel enn algengari en hjá þeim sem hafa orðið fyrir annars konar kynferðisofbeldi.

Þekkir þú birtingarmyndir ofbeldis?

Skoða fleiri dæmi

Stella

Stella hefur birt efni á OnlyFans í nokkrar vikur, er orðin ánægð með stílinn sinn og betri í að vinna efnið tæknilega. Hún er komin með yfir 100 áskrifendur þannig að tekjurnar eru orðnar þokkalegar. Stundum fær Stella fyrirspurn um að útbúa ákveðið efni, um daginn fékk hún beiðni um að taka myndband af sér að sleikja banana. Henni fannst það fyndið og lítið mál fyrir peninginn sem henni var boðinn svo hún gerði það og bætti meira að segja smá við með því að klæða bananann í smokk í lokin, eins og kennarinn gerði í kynfræðslu þegar hún var í 9. bekk.

Nú er þessi gaur búinn að senda aðra beiðni og vill að hún útbúi fyrir sig myndband þar sem hún sýnir hvernig hún notar banana eins og dildó til að fullnægja sér. Samt stendur í lýsingunni hjá henni að hún sýni ekki kynfæri í myndböndum sínum. Henni finnst það ekki spennandi en hann er að bjóða tvisvar sinnum meiri pening en síðast. Pening sem kæmi sér alveg vel að eiga.

Er þetta ofbeldi?

Leiðarvísir fyrir þolendur kynferðisofbeldis

Ef þú ert þolandi vændis gætirðu verið að íhuga að kæra. Hér má nálgast lýsingu á því hvernig réttarvörslukerfið heldur utan um kynferðisbrotamál.

Neyðarmóttaka vegna kynferðisofbeldis

Neyðarmóttakan tekur á móti öllum þeim sem hafa orðið fyrir nauðgun, tilraun til nauðgunar eða öðru kynferðisofbeldi.

Stígamót

Stígamót hjálpa öllum (konum, körlum og kynsegin fólki) sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Kynferðislegt mansal

Kynlífsmansal er þegar manneskja hagnast á að selja aðgang að líkama annarrar manneskju.

Andlegt ofbeldi

Andlegt ofbeldi er þegar einhver hótar þér, gerir lítið úr þér eða lætur þér líða illa. Andlegt ofbeldi skilur ekki eftir sig áverka sem sjást þannig að það er oft erfitt að átta sig á ofbeldinu.

Manneskja situr í hjólastól. Hún snýr frá okkur og horfir upp í vindinn. Mikið og liðað hár sveiflast í vindinum.