Sigurvegari Sexunnar 2023 er Selásskóli!

Dómnefndin var einróma í vali sínu á stuttmynd í fyrsta sæti Sexunnar 2023 - stuttmyndin heitir Friend Request og er gerð af þeim Kareni, Agöthu, Söru, Sigrúnu, Izu Söru, Dalíu og Karmen í 7.bekk Selásskóla.

Í umsögn dómnefndar sagði að stuttmyndin væri "vel framsett saga og frábærlega vel leikin. Heldur áhorfandanum vel og hreyfir sannarlega við honum, með sterkum skilaboðum en líka húmor. Hér er augljóst að verkefninu var tekið alvarlega en á sama tíma má finna sköpunargleði allra þátttakanda".

Neyðarlínan og samstarfsaðilar um Sexuna óskar Selásskóla innilega til hamingju með 1.sætið og þakkar öllum þeim sem tóku þátt.

Horfðu á Friend Request hér og ekki hika við að deila henni sem mest!

1.sæti - Selásskóli

2. sæti - Heiðarskóli Reykjanesbæ

Stuttmynd Heiðarskóla í Reykjanesbæ hlaut annað sæti í Sexunni 2023 og er vel að heiðrinum komin. Umsögn dómnefndar sagði m.a. "Virkilega vel gerð mynd og söguþráðurinn trúverðugur. Grafíkin er einnig mjög skemmtileg. Áhrifarík hljóðblöndun og myndataka, og sérstaklega vel unnið með kvikmyndamiðilinn í lokasenu myndarinnar sem er mjög eftirminnileg!"

3. sæti - Suðurhlíðarskóli

Suðurhlíðarskóli hlaut þriðja sæti í Sexunni 2023 en umsögn dómnefndar var svohljóðandi: "Mjög áhrifarík mynd sem tekst að fara inní sálarlíf aðalpersónunnar með snjöllum og mjög “cinematic” skotum og listrænu klippi. Sagan kemst vel til skila án margra orða. Leikurinn sömuleiðis frábær."

Taktu þátt!

Sexan er stuttmyndasamkeppni fyrir ungt fólk um mörk og samþykki en einnig um tilurð, birtingarmyndir og afleiðingar stafræns ofbeldis. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlanefndar um nektarmyndir á meðal grunnskólabarna kemur fram að 51% stúlkna og 22% stráka hafa verið beðin um nektarmynd.

Fyrirkomulag Sexunnar er einfalt. Þátttakendur fá fræðslu og tækifæri til að búa til og skila inn tilbúinni stuttmynd, hámark 3 mínútur að lengd. Viðfangsefni keppninnar eru fjórar birtingarmyndir stafræns ofbeldis: samþykki, nektarmynd, tæling eða slagsmál ungmenna.

Þátttakendur hafa frjálsar hendur með handritagerð, framkvæmd og eftirvinnslu. Hver skóli má senda að hámarki þrjár myndir í keppnina en dómnefnd skipuð fulltrúum ungmennaráðs, RÚV, MMS og kvikmyndagerðar velur svo þrjár bestu stuttmyndirnar sem verða sýndar á vef UngRÚV í viku sex, kynfræðsluvikunni 6.-10. febrúar 2023.

Sexan er árlegur viðburður fyrir nemendur í 7.bekkjum grunnskóla landsins og verður næst haldin í janúar 2024. Fylgist með!

Hvað er stafrænt ofbeldi?

Stundum er maður ekki með á hreinu hvað er ofbeldi og hvað ekki. Hér er greinargóð skilgreining á stafrænu ofbeldi.

Hvernig bý ég til stuttmynd?

Allt sem þú þarft að vita til að búa til stuttmynd er að finna hér - stutt kennslumyndbönd um handritagerð, ljós, hljóð, kvikmyndatöku, leikstjórn, leikmynd, búninga og klippingu.

Hvernig gerir kvikmyndagerðarfólk myndir?

Til að verða flinkur í stuttmyndagerð, þá er stundum gott að spyrja þá sem kunna meira. Hér má finna spjall við helsta kvikmyndagerðarfólk þjóðarinnar, hvert í sínu fagi.

Samstarfsaðilar Sexunnar