Nú þegar skólanum lýkur og sumarfríið nálgast er mikilvægt að huga að því hvernig megi tryggja sem best Góða skemmtun í sumar. Þó að þetta sé yfirleitt skemmtilegur tími fyrir marga þá geta komið upp alvarleg atvik, meðal annars áfengis- og vímuefnaneysla, kynferðisbrot og annað ofbeldi.

Við viljum tryggja að ungmenni séu vel undirbúnir til að taka öruggar og ábyrgar ákvarðanir í sumar. Hér eru nokkur atriði sem gott er að ræða við börnin ykkar:

Engar skemmtanir á vegum skólanna á sumrin

Það hefur borið við á sumrin að ungmenni skipuleggi ýmis konar skemmtanir, án eftirlits fullorðinna. Foreldar og nemar hafa stundum talið að slíkar skemmtanir séu á vegum skólanna sjálfra. Skemmtanir þar sem nemar eru boðaðir á þessum tímum eru ekki á vegum skólanna sjálfra enda flestir lokaðir yfir sumarið. Ef til þeirra er boðað verður enginn fullorðinn þar til að sinna gæslu, hluti barnanna kann að vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna og hætta er á að slíkar aðstæður geti endað illa.

Opinská samskipti

Ef börnin hafa í hyggju að fara á viðburði eða skemmtanir þarf að tala saman um áform og áætlanir.

Vitund um áfengi og önnur vímuefni

Ræðið um hættur sem fylgja neyslu áfengis og annarra vímuefna. Leggið áherslu á lagalegar afleiðingar, heilsufarslega áhættu og möguleika á skertri dómgreind sem getur leitt til hættulegra aðstæðna. Ef foreldrar eru með skýra afstöðu um að börnin þeirra eigi ekki að drekka áfengi er líklegra að þau fari eftir því.

Persónulegt öryggi

Leggið áherslu á að halda hópinn og passa upp á hvert annað. Minnið á að skilja drykki aldrei eftir eftirlitslausa og taka ekki við drykk frá ókunnugum.

Neyðaráætlanir

Gætið þess að börnin hafi áætlun um neyðartilvik, þar með talið að vita hverja á að hafa samband við og hvar á að leita aðstoðar. Hvetjið þau til að hafa símann fullhlaðinn, vera með 112 appið í símanum, nýta netspjall 112 eða hringja í 112 í neyð.

Samþykki og mörk

Ræðið við börnin um mikilvægi samþykkis og að koma vel fram við hvert annað. Gangið úr skugga um að þau skilji hvað það þýðir að virða mörk annarra.

Öryggi á viðburðum

Ef ætlunin er að fara á viðburði, samkomur eða hátíðir er nauðsynlegt að tala um hvernig megi sem best huga að öryggi s.s. að halda hópinn, ákveða stað til að hittast ef þau týnast, kynna sér útgönguleiðir eða hvar megi nálgast gæslu og lögreglu. Hér má finna æfingu um hvað eigi að gera þegar maður verður vitni að ofbeldi.

Vellíðan

Sumarið getur verið skemmtilegt en líka fullt af stressi. Hvetjið börnin til að leita aðstoðar hjá ykkur ef þau finna fyrir kvíða eða óöryggi.

Með því að ræða þessi atriði getum við unnið saman að því að tryggja börnunum öruggt og skemmtilegt sumar, án ofbeldis. Ætíð er hægt að leita til barnaverndarþjónustu eða lögreglu í síma 112.

Manneskja styður höndum á gagnaugun. Henni líður greinilega illa. Eldingar eru teiknaðar hjá höfðinu.

Slagsmál ungmenna

Gróf slagsmál og einelti hafa alvarlegar og ævilangar afleiðingar.

Manneskja í fjötrum. Hún er með lokuð augu og er leið á svipinn og heldur þétt utan um sig. Rauður þykkur borði er vafinn utan um hana.

Áhættuhegðun

Þegar barn hegðar sér á einhvern hátt sem skaðar eða er líklegt til að skaða heilsu þess og þroska kallast það áhættuhegðun. Til dæmis vímuefnaneysla, sjálfskaði, ofbeldi gagnvart öðrum og afbrot.

Manneskja heldur fyrir augun. Hún snýr að okkur og mikið liðað hár sveiflast til hægri í vindinum.

Kynferðisofbeldi gegn unglingum

Það er kynferðisofbeldi þegar einhver fær þig til að gera eitthvað kynferðislegt sem þú vilt ekki gera eða gerir eitthvað við þig sem þú hefur ekki samþykkt.

Góða skemmtun

Góða skemmtun er kveðja frá Neyðarlínunni með ósk um að landsmenn skemmti sér vel á viðburðum sumarsins.

Tjaldstæði á fallegu íslensku sumarkvöldi. Fjöll í baksýn. Fólk er að koma sér fyrir í tjöldum meðan aðrir eru að elda eða borða sitjandi á teppi. Búið er að kveikja upp varðeld og þar situr gítarleikari og syngur. Myndin er í lit nema einn aðili sem liggur í hengirúmi með öðrum hálf falinn. Er allt í góðu hjá þeim?