Hvað er trúarofbeldi?
Ef þú verður fyrir ofbeldi í nafni trúar er það kallað trúarofbeldi. Oft er heilaþvotti og hræðsluáróðri beitt til að halda þér í þeim hugsunarhætti sem kenningar hópsins boða.
Trúarofbeldi er oft hegðunarmynstur sem endurtekur sig. Oft er andlegu ofbeldi beitt á sama tíma, stundum jafnvel líkamlegu ofbeldi eða kynferðisofbeldi.
Að eiga sér trú getur uppfyllt ákveðna þörf fyrir tilgang, öryggi og samfélag við aðra.
Því getur það verið mikið áfall þegar trú er beitt sem ofbeldistóli, til dæmis ef þér er útskúfað eða ættingjum þínum bannað að tala við þig.
Ofbeldið getur valdið því að þú aftengist sjálfum þér, öðru fólki og umheiminum.
Fólk sem hættir í söfnuðum eða andlegum hópum upplifir oft depurð, kvíða og áfallastreitu eftir dvölina. Því er mikilvægt að fá hjálp.
















